Það er náttúrlega rétt sem Svandís Svavarsdóttir segir að breytingar á kvótakerfinu megi ekki bara skoða út frá hagfræði. Við höfum heldur ekki sérlega góða reynslu af hagfræðinni – flestir hagfræðingar spiluðu með í gróðærinu og töldu að við yrðum bara ríkari og ríkari. Ein kenningin var sú að fjármálastarfsemi myndi leysa sjávarútveginn af sem helsta atvinnugrein þjóðarinnar.
Ef við værum bara að hugsa um hreina hagræðingu þá má vel vera að hagkvæmast væri að láta alla Íslendinga búa í blokk á höfuðborgarsvæðinu og sækja allan fisk á nokkrum stórum skipum.
En lífið er ekki svo einfalt.Það býr fólk allan hringinn í kringum landið og svo verður áfram. Það er fráleitt sem einhver útgerðarmaðurinn hélt fram að smábátaveiðar sköpuðu ekki störf.
Hins vegar er það áhyggjuefni hvað Íslendingar eiga erfitt með að tala saman. Það er engin samstaða um kvótafrumvarp Jóns Bjarnasonar og enginn vilji heldur til að gera neinar málamiðlanir. Ráðherrann er ekki sérlega þekktur fyrir vönduð vinnubrögð og frumvörpin eru gölluð. Viðbrögðin eru svo öll á eina leið. Menn eru öskrandi og æpandi og froðufellandi, fjölmiðlum er beitt og misbeitt – það er mjög rík krafa meðal þjóðarinnar að breytingar verði gerðar á fiskveiðistjórnunarkerfinu en það er vandséð að nokkuð gott komi út úr þessu.