Það virðist fara ógurlega í taugarnar á sumum að fundið sé að því að norskir liðsforingjar séu að leita væntanlegra hermannsefna í íslenskum skólum.
Þegar er rætt um að banna þessar heimsóknir vakna upp háværar raddir um frelsissviptingu.
Jú, það hafa ýmsir Íslendingar gengið í herskóla í Noregi – þar á meðal Kjartan Gunnarsson sem á sínum tíma lærði herfræði þar. Það var á tíma Kalda stríðsins.
Lengst ganga þó félagarnir á vefnum AMX – þeir telja til dæmis ástæðu til að ljúga eftirfarandi upp á Svavar Gestsson:
„Hér er kommúnismi Svandísar og félaga í sinni tærustu mynd. Nemendum er bannað að fræðast innan veggja fæðslustofnunar nema fræðslan þóknist vinstristefnu stjórnvalda. Allt þess utan er bannað og nú hefur Svandís bannað kynningu á erlendu námi í Noregi. Verst að Svandís var ekki við völd hér á árum áður. Hún hefði þá getað stöðvað för föður síns, og annarra, til Austur-Þýskalandi þar sem menn lærðu m.a. vopnaburð og hvernig ætti að bylta stjórnvöldum með vopnaðri byltingu. En það er víst ekki sama hver er.“
AMX verjar tala um fólk fari til Noregs að bíða af sér vinstri stjórnina. Noregur er ríkt land. En það er langt til vinstri. Í Noregi hafa yfirleitt setið vinstri stjórnir og ein slík hefur nú verið við völd um langt árabil. Stefán Snævarr, prófessor í Noregi, hefur reyndar sagt frá því hvernig öll umræða í Noregi hallast til vinstri, ólíkt því sem er hér.
Annars er yfirleitt fundið að því að ríkisstjórnin hér gangi erinda fjármagnsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sem telst varla að vera langt til vinstri. Hjá vinstra fólki hafa vonbrigðin með stjórnina aðallega falist í því að stjórnin sé ekki nógu langt til vinstri – að hún fylgi í raun stefnu fyrri ríkisstjórnar sem taldist vera hægra megin við miðju.
En þess utan er auðvitað stórfyndið að Norðmenn þurfi að fá málaliða utan af Íslandi til að manna herafla sinn.