Menn tala um Grikkland sem víti til varnaðar vegna Evrópusambandsaðildar, en af einhverjum ástæðum eru þeir hættir að nefna Eystrasaltsríkin.
Ástæðunnar kann að vera að leita í pistli sem Friðrik Jónsson ritar hér á Eyjuna en í honum segir meðal annars:
Eistland tók upp evruna um síðustu áramót og var hagvöxtur þar á fyrsta ársfjórðungi sá mesti í Evrópu, 8,5%.
Hagvöxtur í Lettlandi á sama tíma var 3,4% og gáfu þeir út skuldabréf í síðustu viku, rétt eins og Ísland. Kjörin voru töluvert betri, tæpir 240 punktar (bréf Íslands var með 320 punkta álagi), og tímalengdin helmingi lengri, eða tíu ár.
Öll ríkin búa s.s. við góðan hagvöxt eftir krísuna og hafa náð viðsnúningi í sínum efnahagsmálum. Sérstaklega Eistland og Lettland hafa haldið sig við fastgengisstefnu í gegnum krísuna til þess að stefna ekki aðild að evrunni í hættu. Eistland tók, eins og áður sagði, evruna upp um síðustu áramót, og Lettland er áfram á góðri leið að sínu takmarki.
Erlend fjárfesting hefur verið stöðug eða vaxandi í ríkjunum.
Svo má að auki velta fyrir sér efnahagsstöðu annarra „jaðarríkja“ ESB eins og Póllands, Tékklands og fleiri og bera saman við okkar eigin.
Velgengni þjóða veltur fyrst og fremst á þeim sjálfum. Aðild að fjölþjóðasamstarfi eins og ESB getur hins vegar verulega styrkt þá velgengni eins og dæmin sanna. Ekki virðist t.d. nokkur vafi á því, sérstaklega ekki í hugum borgara þessara ríkja, að aðild þeirra að ESB hefur reynst þeim heilladrjúg.
Þau hafa nýtt sér vel kostina – en það byggði aftur á atorku og dugnaði þeirra sjálfra.“