Guðmundur Andri Thorsson gerist nokkuð harðorður í garð Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Greinin nefnist Guðinn sem brást. Hér er niðurlag hennar.
„Eitt er að Hannes Hólmsteinn skuli enn vera svona staffírugur. Að hann skuli enn þverskallast við að horfast í augu við guðinn sem brást – markaðinn – gjaldþrot þeirrar stefnu sem hann átti drýgstan þátt í sjálfur að koma hér á. Væri maður jafn ófyrirleitinn og hann í að draga upp sögulegar hliðstæður mætti líkja þessu við að Goebbels hefði eftir fall nasismans haldið áfram iðju sinni og reynt að sannfæra fólk um að allt hefði þetta verið Krupp-samsteypunni að kenna. Hitt er verra, og satt að segja óskiljanlegt, að Háskóli Íslands láti sér sæma að veita þessum manni óheftan aðgang að æskufólki þessa lands, til að fylla höfuð þess af órum og ranghugmyndum – ekki síst eftir að hann varð uppvís að einhverjum stórfelldasta ritstuldi Íslandssögunnar – en það var víst allt bara frá kommúnistum.
Nú geisar orrustan um söguna. Hvernig hrunið skal túlkað: brást kerfið sem Hannes og félagar komu hér á eða brugðust einstaklingar í fullkomnu kerfi? Því er auðsvarað. Útrásardólgarnir voru ekki óvinir markaðshyggjunnar. Þeir voru afleiðing hennar.“