Tvö núll tap gegn Dönum í fótbolta – það er nákvæmlega það sem má búast við, þrátt fyrir að menn fussi og sveii leikmönnum og þjálfara. Eitt sinn voru töp íslenska landsliðsins reyndar stærri. Einstöku sinnum hafa Íslendingar náð góðum úrslitum gegn landsliðum stórra fótboltaþjóða – en það er undantekning.
Danir eru með landslið sem keppir að staðaldri í heimsmeistarakeppninni og Evrópukeppninni. Leikmenn liðsins spila með stórliðum i Englandi og á meginlandinu.
Ef ég man rétt eiga Íslendingar nú einn leikmann sem spilar í úrvalsdeildinni ensku og einn sem spilar í þýsku Bundesligunni.
Danir eru 5,5 milljónir, Íslendingar 320 þúsund – álíka margir og íbúar borgarinnar Árósa.
Þannig að þetta er alveg eftir bókinni. Það er hægt að láta sig dreyma um frækna sigra á stærri þjóðum, en þeir koma sjaldnast.