Jóhanna Sigurðardóttir virðist vera ein af fáum sem vill halda sumarþing þar sem kvótafrumvörpin yrðu rædd. Í raun er ekki nauðsyn á þessu vegna þess að lögin eiga ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári. En Jóhanna telur þetta kjörið tækifæri til að Sjálfstæðisflokkurinn afhjúpi sig sem fulltrúa sérhagsmunahópa. Hún vill sjá hann engjast. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er laskaður eftir Icesavemálið – og blaktir nú aðallega eftir því hvernig vindurinn blæs í Hádegismóum.
Innan ríkisstjórnarliðsins er þó ekki ýkja mikil stemming fyrir þessu. Þingmenn eru þreyttir og útslitnir eftir mikil átök undanfarinna missera – ástandið þar innandyra er ekki beysið. Ég sá að kona ein orðaði þetta svo á Facebook:
„Horfði á Alþingi í gær í sjónvarpinu. Rosalega er þetta vondur vinnustaður. Fólk alltaf reitt…úthúðar og skammar samstarfsfólk…er alls ekki málefnalegt heldur bara reitt. Ekki gæti ég unnið þarna.“
Það gæti verið ráð að reyna að kæla söfnuðinn aðeins – hleypa úttauguðum þingmönnum í frí og vona að ástandið verði betra þegar þeir koma aftur saman í haust. Er hægt að vona það?