Jón Steinsson hagfræðingur skrifar um upptöku Kanadadollars á vefinn Pressuna:
„Í morgun birtist áhugaverð frétt á vísi um að áhrifamenn í fjármálaráðuneyti og seðlabanka Kanada hefðu sýnt því mikinn áhuga að Ísland tæki upp kanadadollar sem lögeyri. Ég er í engri aðstöðu til þess að meta áreiðanleika þessarar fréttar (og mér finnst hún satt að segja nokkuð ótrúleg – „too good to be true“ – eins og kaninn myndi segja). En ef hún er rétt þá tel ég að um sé að ræða tækifæri sem við ættum að hreinlega að stökkva á.
Af fréttinni að dæma virðast þessir aðilar í Kanada í raun vera áhugasamir um tvíhliða samkomulag um upptöku Íslands á kanadadollar. Ef slíkt samkomulag hefði í för með sér að Fjármálaeftirlit Kanada tæki að sér bankaeftirlit á Íslandi og að Seðlabanki Kanada gerðist lánveitandi til þrautarvara á Íslandi væri það afskaplega áhugaverður kostur fyrir okkur Íslendinga.“
Ég sá þetta fyrst í Fréttatímanum og svo birtist fréttin á
Vísi. Þar er sagt að kanadískir embættismenn hafi rætt við íslenska kaupsýslumenn? Hverjir eru það?
Það hlýtur að vera hægt að komast að því hvort eitthvað er hæft í þessum hugmyndum, hvort raunverulegur áhugi er fyrir hendi í Kanada – maður spyr reyndar hví þá? – eða hvort þetta eru órar eins og þegar menn töldu að við gætum farið að taka upp norsku krónuna?
Og hvort menn eru að tala um samstarf milli þjóða og þá á hvaða grundvelli – eða hvort hér er að ganga aftur hugmyndin um einhliða upptöku annars gjaldmiðils?
Nú virðist verðbólga aftur vera á döfinni á Íslandi og hugsanlega vaxtahækkun, í stöðnuðu hagkerfi. Jón Steinsson skrifar líka:
„Íslenska krónan heldur mjög aftur af íslenska hagkerfinu eins og staðan er í dag. Tilvist hennar útheimtir annað tveggja gjaldeyrishöft eða himinháa vexti. Hún er þar að auki viðskiptahindrun og líklega sérstaklega hindrun í vegi fyrir aukinni samkeppni á fjármálamarkaði á Íslandi. Það er til mikils að vinna að losna við krónuna. Samningur um upptöku kanadadollars gæti verið besti kostur okkar hvað það varðar.“