Það var löngum hlegið að konum sem vildu gera dætur sínar að ballerínum – kannski af því þær gátu það ekki sjálfar. En það er sjaldnar hlegið að körlum sem vilja gera börnin sín – ja, aðallega syni sína – að afreksmönnum í knattspyrnu.
Litlir drengir út um allt land eru klæddir upp í búninga enskra fótboltaliða frá blautu barnsbeini, þeir eru keyrðir á æfingar mörgum sinnum í viku. Mjög fljótlega er reynt að koma þeim í skilning um að þetta sé ekki bara gaman, heldur dauðans alvara. Þeir megi ekki missa úr æfingar því þá dragist þeir aftur úr. Og æfinganar eru síður en svo bara leikur einn – lítil börn eru látin hlaupa og gera armbeygjur. Svo er snemma farið að keppa. Þá standa feðurnir æpandi á hliðarlínunni – prúðustu menn missa sig. Svo er farið að fórna sumarfríum fjölskyldunnar og ferðum út í sveit fyrir fótboltaleiki og fótboltamót. Æfingarnar eru svo tíðar að æ sjaldnar sér maður börn leika sér í fótbolta úti á túnum eða við skóla.
Líklega eru þetta áhrif frá ensku knattspyrnunni. Það er alið á draumum um að litlir drengir verði atvinnuknattspyrnumenn. En þeir eru sárafáir sem meika það. Sumir komast upp í meistaraflokk á Íslandi og spila þar einhver ár. Oft þurfa þeir samt að horfa upp á það, eftir þrotlausar æfingar í mörg ár, að aðkeyptir leikmenn taka liðsplássið sem þeir ætluðu að komast í.
Og svo er ferillinn búinn – hann endist ekki miklu lengur en til rúmlega þrítugs.
Þetta er allt partur af leiknum og hann er mjög vinsæll. En samt er þetta svolítið fábreytt. Ég hefði haldið að íþróttafélögin ættu að reyna að bjóða upp á fjölbreyttara starf þar sem sem börn geta reynt fyrir sér í ýmsum greinum – og ekki alltaf með það að markmiði að komast í afreksflokk.
Sigríður Víðis Jónsdóttir skrifar ágæta grein um þetta í Fréttablaðið. Nefnir hana Kæra 7 ára barn, hertu þig. Hún segir meðal annars:
„Hvernig varð það að viðtekinni hugmynd að börn sem hafa áhuga á að stunda íþróttir stefni almennt á að verða afreksíþróttafólk eða atvinnumenn? Þau skuli öll skara fram úr – með góðu eða illu. Hreyfing er fyrir öllu. Kannski sérstaklega í ljósi þess að fimmta hvert barn á Íslandi mælist yfir kjörþyngd og fimm prósent barna of feit. Við eigum mikið af frábærum kornungum íþróttabörnum – en það þurfa ekki allir krakkar að verða afreksmenn. Við myndum aldrei gera þá kröfu á alla fullorðna sem vilja hreyfa sig.“