Ég hef talið nokkuð víst að Vinstri grænir muni klofna fyrir næstu kosningar. Að Lilja Mósesdóttir muni standa fyrir framboði á vinstri vængnum sem myndi taka mikið fylgi frá Vinstri grænum.
Lilja hefur sýnt að hún hefur burði til þess – og hún nýtur mikilla vinsælda.
Einhvern veginn hefði ég haldið að Ásmundur Einar Daðason myndi fara með henni, en svo er ekki. Hann er genginn í Framsóknarflokkinn.
Kannski á hann ágætlega heima þar, Ásmundur er maður sem fyrst og fremst horfir til nokkuð þröngra hagsmuna bænda. Og líklega er hann ekkert sérlega vinstri sinnaður, þótt afi hans, Einar á Lambeyrum í Laxárdal, hafi verið þekktur sósíalisti.
Halldór Ásgrímsson ætlaði að gera Framsókn að frjálslyndum miðjuflokki sem nyti fylgis í þéttbýlinu. Það mistókst – og það verður að segjast eins og er að Halldór var ekki gifturíkur formaður.
Nú er flokkurinn kominn á allt aðrar slóðir. það virðist einsýnt að hann muni hneigjast meira til þjóðernishyggju og dreyfbýlis.