Ég ætlaði að taka viðtal við franska rithöfundinn Michel Houellebecq í fyrramálið. Hann er gestur á Listahátíð. En Houellebecq er fastur í Frakklandi vegna eldgossins.
Það er samt ekki útséð með að hann komist ekki – það má vera að flug hefjist aftur síðdegis á morgun. Eða það stendur á vef Icelandair.
Houellebecq hefur skrifað tvær bækur sem hafa komið út á íslensku í þýðingu Friðriks Rafnssonar, Öreindirnar og áform.
Ég hef verið að lesa nýjustu bók hans sem nefnist Kortið og svæðið, en hún fékk hin virtu Goncourt bókmenntaverðlaun.
Houellebecq er ótrúlega hugkvæmur höfundur. Í bókinni fer hann í skrítna hlutverkaleiki – hann er sjálfur persóna í bókinni og lýsingarnar hans á sjálfum sér eru ekki uppörvandi. Hann býr í hálftómu húsi á Írlandi, dröslast um drukkinn og þunglyndur.
En kannski er hann bara að leika sér að þeirri mynd sem hefur verið gefin af honum í fjölmiðlum?
Houellebecq hefur verið býsna duglegur að hneyksla, það eru ekki síst vinstri sinnaðir menntamenn sem hafa haft horn í síðu hans. Hann er ekki hræddur við að takast á við viðfangsefni úr samtímanum, það mætti jafnvel segja að aðalumfjöllunarefni hans sé hnignun vestrænnar menningar. Hann er umdeildur, en hann er afburðahöfundur, einn sá fremsti sem nú er á lífi, og alltaf áhugaverður.