Styrmir Gunnarsson, einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins um langt skeið, birtir erindi eftir sig á Evrópuvakt hans og Björns Bjarnasonar þar sem hann varar við áhrifum sérhagsmunahópa á borð við LÍÚ innan Sjálfstæðisflokksins. Styrmir segir að flokkurinn verði að hverfa frá þessum vinnubrögðum og fara að beita sér fyrir beinu lýðræði. Styrmir skrifar:
„Mín skoðun er sú, að hrunið hafi afhjúpað veikleika í þjóðfélagsgerð okkar, sem Sjálfstæðisflokkurinn verði að horfast í augu við og takast á við vilji hann halda stöðu sinni í íslenzkum stjórnmálum. Þessir veikleikar snúa að samspili fámennis, kunningsskapar, sérhagsmuna og stjórnmála. Þeir þýða í raun að þjóðfélag okkar hefur verið í klóm sérhagsmuna.
Áhrifaríkasta leiðin til þess að brjóta þá sérhagsmuni á bak aftur er að taka upp beint lýðræði, þar sem þjóðin sjálf taki ákvarðanir um öll meginmál í þjóðaratkvæðagreiðslu og íbúar einstakra sveitarfélaga með sama hætti.
Sérhagsmunaöfl geta með ýmsum hætti haft áhrif á alþingismenn, borgarfulltrúa, bæjarfulltrúa og aðra sveitarstjórnarmenn. Þeir geta haft áhrif á ákvarðanir þessara aðila með fjárstuðningi, með loforðum um stuðning í prófkjörum eða hótunum um andstöðu í prófkjörum. Sérhagsmunaöfl geta hins vegar ekki haft áhrif á þjóðina alla, þótt þau geti auðvitað reynt að hafa áhrif á hana í aðdraganda kosninga.
Í samfélagi okkar kemur upp hvert málið á fætur öðru, sem þjóðin er margklofin í afstöðu til. Stundum er eins og baráttan hætti aldrei eins og t.d. gegn Kárahnjúkavirkjun. Hefði sú virkjun verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu var málið afgreitt. Við höfum í á þriðja áratug rifizt um kvótakerfið. Hefði þjóðin tekið afstöðu til þess hvernig stjórna ætti fiskveiðum í almennri atkvæðagreiðslu var ekki lengur um neitt að rífast.
Icesave-málið er skýrt dæmi um þetta. Þjóðin hefur kveðið upp sinn dóm í því máli og það vogar sér enginn að draga þann dóm í efa.
Krafa búsáhaldabyltingarinnar var aukið lýðræði. Þótt sú bylting hafi hrakið frá völdum ríkisstjórn, sem sat undir forystu Sjálfstæðisflokksins er ég ekki þeirrar skoðunar að flokkurinn eigi að gera lítið úr henni. Þvert á móti tel ég að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að líta á búsáhaldabyltinguna sem boðskap frá þjóðinni um að hún muni styðja þá sem skilja hvað hún var að reyna að segja.
Krafa hennar var um aukið lýðræði – um beint lýðræði.
Endurnýjun flokka og stefnumála þeirra fer ekki fram með breytingum á afstöðu til dægurmála. Hún fer fram með þeim hætti að flokkar skynja þá strauma, sem eru að brjótast um í þjóðardjúpinu. Það er mín sannfæring, að þeir straumar nú séu krafan um beint lýðræði og að sá flokkur eða þeir flokkar, sem verða fyrstir til að gera það grundvallarmál að sínu muni nái trausti fólksins í landinu. Þessi krafa snýst í raun um að færa völdin frá flokkunum til fólksins.
Hvaða flokki stendur það nær en þeim flokki sem í 80 ár hefur staðið í fylkingarbrjósti baráttunnar fyrir lýðræði og frelsi og gegn einræði og kúgun?
En við skulum heldur ekki gleyma því að stjórnmálaflokkur, sem skynjar ekki strauma nýrra tíma hefur lokið hlutverki sínu og hverfur af vettvangi.
Þetta eru meginrök mín fyrir því, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að taka forystu um að gera beint lýðræði að grundvelli stjórnskipunar íslenzka lýðveldisins á 21. öldinni. Raunar finnst mér að það sé prófsteinn á það, hvort flokkurinn skilji kall tímans hvort hann gerir það á næsta landsfundi sínum, svo að eftir verði tekið.
Sömu rökin og eiga við um beint lýðræði á landsvísu og í sveitarstjórnum eiga við um Sjálfstæðisflokkinn sjálfan og starfshætti hans og raunar um fleiri almannasamtök.
Ég er þeirrar skoðunar að skipulag Sjálfstæðisflokksins sé orðið úrelt. Það byggir á sömu grunnhugsun og fulltrúalýðræðið og er þar af leiðandi í sömu hættu og það að verða sérhagsmunum að bráð.
Við skulum horfast í augu við að öflugir sérhagsmunahópar hafa haft gífurleg áhrif innan Sjálfstæðisflokksins. Hagsmunasamtök útgerðarmanna hafa alla tíð haft mikil áhrif í flokki okkar og hið sama á við um hagsmunasamtök atvinnurekenda í verzlun.“