Englendingar beittu Íra hryllilegri kúgun í mörg hundruð ár. Breska heimsveldið var slæmt, en það var sagt að verstir hefðu þeir verið við þjóðir sem voru næst þeim. Íslendingar voru ekki sérlega gæfusöm þjóð – en það var lán að lenda ekki undir Englendingum. Englendingar voru líka ótrúlega hræsnisfullir, því þeir töldu sér trú um að heimsveldisstefna þeirra væri til góðs fyrir þær þjóðir sem lentu undir henni.
Þessi kúgun hefur lengi setið í Írum. Langt fram á tuttugustu öld voru Englendingar í því að drepa baráttumenn fyrir frelsi Írlands. Skipan stjórnmála þar hefur lengi verið með sniði sjálfstæðisbaráttunnar – og andúð á Englendingum hefur verið landlæg. Kúgun þeirra á kaþólska minnihlutanum á Norður-Írlandi gleymist heldur ekki. Það er ekki furða að Írar hölluðu sér mjög að meginlandi Evrópu. Þessi saga er erfið fyrir Íra, minningin um kúgun, arðrán, landrán og landflótta, og að sumu leyti hefur hún virkað mjög hamlandi – jafnvel þótt mörg lögin og kvæðin úr sjálfstæðisbaráttunni séu góð.
Það er merkisatburður þegar Bretadrottning kemur í heimsókn til Írlands og hneigir höfuð við minnisvarða um þá sem börðust fyrir sjálfstæðinu. En hún biður samt ekki afsökunar fyrir hönd Englendinga – eða hvað?