Þingmenn fengu launahækkun um daginn. Þ.e. það virðist sem sumir hafi fengið launahækkun, þeir sem eru varaformenn í nefndum og vara varaformenn.
Það er verið að koma upp mjög skrítnu kerfi og ógegnsæju. Þingmenn fá alls kyns sporslur – sumir meira en aðrir.
Í rauninni eru það flokksformennirnir sem útdeila þessum peningum – því það eru þeir sem eru í náðinni hjá þeim sem komast í þá aðstöðu að fá aukagreiðslurnar.
Það er sagt að með því að sparka Siv Friðleifsdóttir úr forsætisnefnd þingsins sé Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að lækka laun hennar um 15 prósent, en um leið sé hann að hækka kaup bandamanns síns Sigurðar Inga Jónssonar.
Einfaldast væri auðvitað ef þingmenn væru með gott kaup og allir fengju það sama. Því það er engin leið að segja að einn þingmaður sé mikilvægari en annar – þeir hafa allir hlotið lýðræðislega kosningu og sá sem er merkilegasti þingmaðurinn í mínum huga getur verið algjör fábjáni í huga nágranna míns.