Sýrland hefur á undanförnum árum orðið vinsælt ferðamannaland. Damaskus er ein elsta borg í heimi og í landinu eru ýmsar áhugaverðar minjar, sumar frá tímum Rómverja, aðrar frá krossferðunum. Landið hefur boðið upp á öryggi fyrir ferðamenn. En bak við tjöldin ríkir ógnarstjórn – menn bundu vonir við að henni myndi létta undir Bazhar al Assad, sem er sonur gamla einræðisherrans Hafez al Assad.
Nú hefur soðið upp úr – og ferðamenn halda sér fjarri. Í fréttum í dag segir að skriðdrekasveitir sjórnarinnar séu nú á leið til borgarinnar Hama en þar hafa brotist út mótmæli. Það vekur upp óþægilegar minningar.
Nafnið á borginni hjómar kunnuglega – jú, þetta er staðurinn þar sem voru framin skelfileg fjöldamorð fyrir tuttugu og níu árum. Þau voru reyndar ekkert mikið í fréttunum, þetta voru atburðir sem fóru furðu hjótt. Hama er fjórða stærsta borg Sýrlands og helsta vígi súnní-múslima. Stór hluti borgarinnar var lagður í rúst á tíma fjöldamorðanna, í febrúar 1982. Varfærnasta mat segir að 10 þúsund manns hafi verið drepin, en tölur allt upp í 40 þúsund hafa líka heyrst. Flest fórnarlömbin voru óbreyttir borgarar, líka konur og börn.
Blaðamaðurinn Robert Fisk kom til Hama stuttu eftir fjöldamorðin, hér er grein eftir hann úr The Independent þar sem hann fjallar um hvernig þessir atburðir hafa verið þaggaðir niður.