Það hefur reynst erfitt að finna lausn á skuldavanda Grikkja. Ríkissskuldabréf Grikkja eru komin í ruslflokk. Einn vandinn er sá að Grikkir flytja svo lítið út að það verður lítill afgangur á utanríkisviðskiptum.
Nú kváðu þeir hafa hótað því að yfirgefa evruna og taka upp drökmuna að nýju.
Það gæti haft einhverja kosti í för með sér. Grikkland yrði samkeppnishæfara, það yrði ódýrara að ferðast þangað – með þessu myndi líklega fylgja sú klásúla að þeir ætluðu að borga skuldir sínar í drökmum.
En á móti koma ýmis vandkvæði. Þetta er engin patentlausn. Nýja drakman myndi sökkva eins og steinn. Það yrði óðaverðbólga í landinu og ringulreið. Grikkir myndu eiga í erfiðleikum með að greiða fyrir innfluttan varning sem þeir eru mjög háðir. Bankarnir í landinu myndu hrynja allir sem einn og það yrði gríðarlegur fjármagnsflótti. Líklega þyrfti að loka landamærum ríkisins til að reyna að stöðva hann.
Þannig að það eru engir góðir kostir í boð fyrir Grikki. Kannski er möguleiki að þeir gætu rétt fljótar úr kútnum með þessum hætti en með því að þreyja innan evrunnar. Það er þó alls ekki víst.