Skotar hafa nú tækifæri til að svara fyrir þann kafla í sögu sinni sem nefnist The Highland Clearances. Það var þegar bændafólk var hrakið af jörðum sínum í stórum stíl svo stórir landeigendur gætu sölsað þær undir sig. Fólkið flutti til strandar og margir fóru svo alla leið til Ameríku. Þessir atburðir urðu á 18. og 19. öld.
Þessi stytta í Helmsdale er minnisvarði um þessa atburði, hún var vígð af Alex Salmond, forsætiráðherra Skota árið 2007.
Salmond og flokkur Skoskra þjóðernissinna unnu stórsigur í kosningum í síðustu viku. Því stefnir allt í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands á næstu árum. Stóru bresku flokkarnir, Íhaldið, Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir demókratar eru allir á móti.
Það var gæfa fyrir Íslendinga að lenda ekki undir breska heimsveldinu, hin fremur afskiptalitla stjórn Dana var skárri. Englendingar voru slæmir, hrokafullir og gráðugir, og einna verstir við þá sem voru næst þeim – Skota og svo náttúrlega Íra sem þeir beittu svívirðilegri kúgun.
Skoðanakannanir sýna að afstaða Skota til sjálfstæðis er nokkuð svipuð og afstaða Íslendinga til ESB. Meirihluti vill að málið verði leitt til lykta með þjóðaratkvæðagreiðslu, en meirihluti virðist líka vera andsnúinn sjálfstæði.