Það fer fram hörð barátta um kvótann. Enda miklir peningar í húfi. Stór hluti af auði Íslands – og í þokkabót mjög mikil völd.
Baráttan tekur á sig ýmsar myndir og þeir eru margir sem stíga fram á sviðið, misjafnlega æstir.
Ekki eru allir góðir talsmenn fyrir málstað sinn.
Það má til dæmis gera að því skóna að Magnús Kristinsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum sé mjög vondur talsmaður fyrir kvótasinna.
Hann er einn af þeim sem byggði ríkidæmi sitt á kvótaeign, fór svo í alls konar viðskipti, margt af því gæti kallast brask, fjárfestingarfélag hans Gnúpur hrundi löngu áður en allt hitt klabbið fór. Í fréttum hafa verið afskriftir í bönkum vegna Magnúsar upp á marga tugi milljarða.
Í raun má segja að þarna sé einmitt víti til varnaðar hvað varðar kvótakerfið.