Obama var upphaflega kynntur sem maður vonar – maður nýrra tíma í Bandaríkjunum og heiminum öllum. Og þannig náði hann kjöri sem forseti. Mikið af ungu fólki vann fyrir hann og greiddi honum atkvæði.
Eða þannig var honum pakkað inn.
En líklega var ekki mikið í pakkanum – því nú blasir við okkur allt annar Obama.
Þetta er forsetinn sem gerist nú mjög vígreifur, horfir á erkióvin Bandaríkjanna drepinn í beinni útsendingu, fer út á meðal hermanna og talar um eina „stórkostlegu hernaðaraðgerð í sögu þjóðarinnar“. Hann kjamsar á retóríkinni úr hinu svokallaða stríði gegn hryðjuverkum.
Ég kunni betur við fyrri útgáfuna af Obama, en líklega var hún bara gervi. Eins og stendur virðist Bandaríkjamönnum hins vegar líka betur við nýju útgáfuna – hún talar til hermennskuandans og þjóðernishyggjunnar.
Einhverjir kjósendur Obamas telja sig ábyggilega svikna, en miðað við dvergmenninn sem virðast ætla að bjóða sig fram gegn honum ætti hann að vera næsta öruggur með endurkjör. Nýju umbúðirnar um hann virðast vera nokkuð söluvænlegar.