Lítil svipbrigði geta sagt meira en mörg orð.
Víkingur Heiðar Ólafsson lék píanókonsert Griegs við opnun Hörpunnar á miðvikudagskvöldið. Jónas Sen skrifar mikinn dóm um tónleikana og húsið í Fréttablaðið.
Jónas segir að það sé ábyggilega ekki auðvelt fyrir ungan píanista að leika undir stjórn Ashkenazys – sem sjálfur er einn af mestu píanóleikurum heims, goðsögn í lifanda lífi. Jónas segir að Víkingur hafi fullkomlega staðið undir væntingunum.
Ég sá að þegar Víkingur stóð upp frá hljóðfærinu horfðust þeir stuttlega í augu hann og meistarinn. Ashkenazy kinkaði örstutt kolli og brosti dálítið undirfurðulega. Þetta var skemmtilegur svipur og í honum fólst mikil viðurkenning.
Annars skal mælt með dómi Jónasar um tónleikana en hann hefst á svofelldum orðum:
„Ég var í fimmtugsafmæli um daginn. Eitt af skemmtiatriðunum var síðasti kafli níundu sinfóníunnar eftir Beethoven. Flytjendur voru tveir, gítarleikari og söngvari. Í sjálfu sér var flutningurinn hryllilegur, en hann átti að vera brandari, og sem slíkur var hann frábær.
Mér datt þetta í hug á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu á miðvikudagskvöldið. Þar var líka níunda sinfónían á dagskránni. Sinfónían hefur margoft verið leikin í Háskólabíói. Munurinn á hljómburðinum þar og í Hörpu er sláandi. Að flytja verkið í bíósal sem hentar engan veginn til tónleika er í rauninni hálfgerður brandari. Að Sinfóníuhljómsveit Íslands hafi þurft að vera þar árum saman er þó langt frá því að vera fyndið.
Það var ótrúleg upplifun að koma í Hörpu. Húsið er einstaklega fallegt að utan, en það virkar miklu stærra fyrir innan. Og stóri salurinn, Eldborg, er ægifagur. Allur eldrauður og með mörgum svölum, gríðarlega hátt til lofts. Bara að horfa á herlegheitin er upplifun út af fyrir sig.“