Síðasta Kiljan á þessu misseri verður á dagskrá í kvöld.
Í þættinum verður fjallað um ferðabókahöfundinn, fjölfræðinginn og málarann W.G. Collingwood sem ferðaðist um Ísland sumarið 1897 og gerði um þrjú hundruð vatnslitamyndir og teikningar sem þykja ómetanlegar heimildir. Ljósmyndarinn Einar Falur Ingólfsson hefur undanfarin ár ferðast á staði sem Collingwood lýsti í myndum sínu, hann hefur meðal annars tekið ljósmyndir á nákvæmlega sömu stöðum og Collingwood málaði – þessi vinna hans verður uppistaðan í sýningu á Listahátíð í vor en einnig gefur Crymogaea út bók með þessu verki.
Sagt verður frá nýju úrvali kvæða eftir Jóhannes úr Kötlum sem Silja Aðalsteinsdóttir hefur tekið saman.
Sýningu í Þjóðmenningarhúsi sem lýsir rithöfundinum, blaðamanninum, Grikklandsvininum og baráttumanninum Sigurði A. Magnússyni.
Ingibjörg Hjartardóttir, sem búsett er í Svafaðardal, segir frá skáldsögu eftir sig sem nefnist Hlustarinn, en þar er meðal annars fjallað um „Esjustelpurnar“, þýskar konur sem komu til starfa í sveitum landsins eftir seinni heimstyrjöld.
Við sýnum brot úr nýrri heimildarmynd eftir Erlend Sveinsson, en þar segir frá ferð Thors Vilhjálmssonar eftir Jakobsveginum svokölluðum, pílagrímaleiðinni sem liggur um Norður-Spán til hinnar helgu borgar Santiago de Compostela.
Kolbrún og Páll fjalla um nýja nóvellu eftir Guðberg Bergsson sem nefnist Missir og Bláu minnisbókina eftir lækninn James Levine, en þar er lýst með nöturlegum hætti lífi barna sem eru neydd til að stunda vændi á Indlandi.
Og Bragi er á sínum stað í lok þáttarins.