fbpx
Mánudagur 01.september 2025
Eyjan

Hættan við fjölmiðlanefnd

Egill Helgason
Miðvikudaginn 20. apríl 2011 15:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það verður forvitnilegt að sjá hverjir veljast í hina nýju eftirlitsnefnd með fjölmiðlum.

Það er eins líklegt að flóð af kvörtunum berist nefndinni á næstu misserum. Þetta er nýtt fyrirbæri og margir munu vilja láta reyna á hvar mörkin liggja í fjölmiðlaumfjöllun og hvort hægt sé að nota nefndina til að ráðskast með fjölmiðlana.

Það er vissulega rétt að einhverjar slíkar nefndir eru starfandi víða – í Bretlandi hafa þeir The Press Complaints Commission sem fylgist með blöðum og tímaritum, en hún er sjálfstæð stofnun sem starfar á vegum blaðanna sjálfra. Svo er það Ofcom sem fylgist einkum með ljósvakamiðlum, ekki síst með tilliti til samkeppnissjónarmiða. En þar er líka hægt að kvarta yfir einstökum sjónvarpsþáttum.

Við erum semsagt ekki ein á báti með þetta hér á Íslandi. En veldur hver á heldur.

Fyrirkomulagið á að vera að Hæstiréttur tilnefni tvo nefndarmenn, samstarfsmenn háskólastigsins einn, menntamálaráðherra einn og Blaðamannafélag Íslands einn. Ég held það hefði farið betur á því ef fjölmiðlarnir hefðu átt fleiri fulltrúa.

Nefndin og starfsmenn hennar munu hafa talsvert vald. Það er mjög mikilvægt að því verði sparlega beitt. Tjáningarfrelsi er hornsteinn í vestrænum lýðræðisríkjum – líka frelsið til að hafa vondar skoðanir, vera leiðinlegur og jafnvel ógeðslegur.

Best er svona nefnd ef hún gerir mjög lítið – og jafnvel ekki neitt.

Það hafa verið áskoranir til forseta Íslands að synja lögunum staðfestingar. Hann gæti vel íhugað að gera það – enda synjaði hann öðrum fjölmiðlalögum um samþykki árið 2004. Það er talsverð hætta á að fjölmiðlanefndin taki sér alltof mikið vald, misbeiti því jafnvel ef ekki er varlega farið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna