fbpx
Mánudagur 01.september 2025
Eyjan

Fremstir og til fyrirmyndar

Egill Helgason
Miðvikudaginn 20. apríl 2011 09:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ögmundur Jónasson segir að 21. öldin verði „öld hins beina lýðræðis“.

Hann er bjartsýnn. Í raun er voða fátt sem bendir til þessa. Í raun óttast maður frekar að fólk á öldinni þurfi að stríða við endurkomu fasisma í ýmsum gervum.

Kína er orðið næststærsta efnahagsveldi heimsins. Þar er rekinn það sem hefur verið kallað herskálakapítalismi – sem mætti allt eins skilgreina sem ein konar útgáfu af fasisma þótt opinberlega eigi stjórnmálastefnan að heita kommúnismi.

Í Bandaríkjunum virðast fjármagnsöflin hafa endanlega tekið yfir stjórn landsins. Ójöfnuður eykst stórkostlega – svokölluð tepokahreyfing átti að vera uppreisn gegn þessu en á framgöngu tepokafólks sem var kosið á Bandaríkjaþing sést að helstu stefnumálin eru að skera niður velferðarkerfi og gæta þess að ríkt fólk sé ekki skattlagt.

Eins og marxistinn gamli Slavoj Zizek hefur bent á er Evrópa með langréttlátasta þjóðfélegaskerfið af  þessu þrennu. Þar eru ennþá ríkjandi hugsjónir um jöfnuð og almenna velferð. Evrópa er hins vegar að sligast undan skuldum og þungum eftirlaunakerfum. Ein aðferð til að ráða bót á þessu er að flytja inn fólk sem getur unnið störfin, en það vekur upp heift – já, oft fasískar kenndir – hjá þeim sem fyrir eru. Evrópa reynir þó að einhverju leyti að halda fjármálavaldinu í skefjum, ólíkt Bandaríkjunum – og Bretlandi.

Lönd eins og Grikkland, Portúgal, Spánn og Írland, sem Ögmundur segir að tveir danskir stjórnmálamenn hafi talað um með niðrandi hætti, hafa lifað líkt og Ísland langt um efni fram.  Á Írlandi var blásin upp óskapleg banka- og húsnæðisbóla, en Grikkland varð á endanum fórnarlamb pólitískrar spillingar og þeirrar staðreyndir að Grikkir vilja helst ekki borga skatta – ríkir Grikkir hafa gert allt sem þeir geta til að komast undan því. Bandaríkjamenn eru sjö sinnum fleiri en Spánverjar, en um tíma var á Spáni verið að byggja hús sem námu þriðjungi af því sem var byggt í Bandaríkjunum á tíma mestu húsnæðisbólunnar.

Hvort einhver lýðræðisvakning verður í kringum þetta eða hvort vindar lýðræðis blási nú sérstaklega skal ósagt látið. Kannski virðist frekar vera jarðvegur fyrir öfgaöfl. Þjóðaratkvæðagreiðsla upp á Íslandi mun ekki breyta miklu í þessu efni. Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur skrifar grein í Fréttablaðið og minnist þess að fyrir nokkrum árum hafi Íslendingar talið sig vera fyrirmyndarþjóð hvað varðar fjármálastarfsemi. Nú erum við samkvæmt sumum orðin fyrirmynd um þveröfugan hlut, baráttuna gegn alþjóðlegum fjármálamörkuðum.  Útrásin er semsé búin að finna ranghverfu sína.

„Alltaf fremstir og til fyrirmyndar,“ skrifar Gunnar, en Ögmundur bölsótast út í dönsku stjórnmálamennina sem dirfast að hafa aðra skoðun en hann og kallar þá „farísea“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna