Kristinn Pétursson, fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar á vef sinn um framgöngu stjórnar Samtaka atvinnulífsins:
„Í dag hefur verið furðulegt að fylgjast með fréttum af kjarasamningum – og hvernig reynt er að þvinga fram hrossakaup við ríkisstjórn um óbreytt kvótakerfi – af aðilum vinnumarkaðarins – með hótunum – nánast í beinni útsendingu.
Þar sem stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins er nú til umræðu – þá er þessi uppákoma ágætt dæmi um það, hversu langt við erum komin frá grundvallarreglum siðaðs samfélags. Á LÍÚ að stjórna bæði ríkisstjórn og Alþingi með frekju og yfirgangi? Hvar stendur það í stjórnarskránni?
Af hverju halda menn svo að bankakerfið hafi hrunið – og þjóðin næstum orðið gjaldþrota nema vegna svona sambærilegs siðleysis og virðingarleysis fyrir grundvallarreglum siðaðs samfélags.
Samtökum atvinnulífsins (SA) – finnst nú boðlegt að setja fram ósiðlega og ósvífna kröfu á framkvæmdavaldið – að ráðherrar ríkisstjórnar Íslands – ábyrgist með skriflegri yfirlýsingu – inn á borð aðila vinnumarkaðarins – hvernig Alþingismenn löggjafarvaldsins muni greiða atkvæði í væntanlegu frumvarpi um fiskveiðistjórn – og hvað eigi að standa í lögum – sem löggjafanum er ætlað að semja.
Sem sagt – krafa um hrossakaup frá SA – nánast í beinni útsendingu.“