Bjartur í Sumarhúsum er persóna sem tortímir fjölskyldu sinni með einstrengingshætti sínum og þumbaraskap. Hann berst við að halda í bú sitt uppi á heiðum, er bundinn við rollurnar sínar og hefur ekki hugmyndaflug til að færa sér í nyt annað sem má finna í heiðinni. Hann vill ekki fá kú á bæinn svo börnin geti fengið mjólk að drekka. Hann er einmitt að leita að týndri á þegar kona hans Rósa deyr úr barnsförum. Í lok sögunnar er hann á leið enn lengra inn á heiðina, í ennþá aumara kot, en hefur þó náð að sættast við dóttur sína, Ástu Sólliju, sem er dauðvona í fangi hans.
Skáldsagan Sjálfstætt fólk vakti mikla reiði þegar hún kom út á sínum tíma, ekki síst vegna þess hvernig hún lýsir smábýlahugsjón Jónasar frá Hriflu.
En það er sífellt verið að draga upp Halldór Laxness á Íslandi til stuðnings við alls konar málstað. Margir virðast reyndar ekki hafa lesið hann. Til dæmis Evrópuþingmaðurinn Daniel Hannan sem notaði Bjart sem dæmi um sjálfstæðislund Íslendinga í grein í The Spectator. Það var reyndar í sömu grein að hann lýsti Íslendingum sem bestu lærisveinum Margrétar Thatcher.
Í Mogganum í dag birtist enn ein greinin þar sem Bjarti er lýst sem fyrirmynd Íslendinga. Þar segir:
„Mat mitt er að Nóbelsskáldið okkar Halldór Kiljan Laxnes heitinn hafi lýst vel í söguhetju sinni Bjarti í Sumarhúsum þjóðarsál sérhvers Íslendings. Í brjósti okkar blundar Bjartur, von og þrá hvers einasta Íslendings um að eignast hús, íbúð, bíl eða jörð allt eftir getu og vilja hvers og eins. Það er sú gulrót sem heldur samfélaginu gangandi.“
Er ekki kominn tími til að menn fari að lesa Sjálfstætt fólk í staðinn fyrir að kjafta um hana?