Í dag halda bókasöfnin í landinu hátíð. Það er skemmtilegt. Bókasöfn eru merk fyrirbæri. Í aldanna rás hafa þau verið einn helsti þekkingarbrunnur mannkynsins. Um bókasafnið mikla í Alexandríu eru fagrar og miklar goðsagnir, en því miður brann það. Á miðöldum voru bókasöfn helst í klaustrum – þar voru bækur skrifaðar upp – klaustrin sem áttu flestar bækur þóttu merkilegust. Borges var heillaður af bókasöfnum eins og saga hans Babelsbókasafnið ber vott um og í kvæði ímyndar hann sér að paradís sé einhvers konar bókasafn. Umberto Eco er sagður eiga 30 þúsund bindi, í Nafni rósarinnar fjallar hann um vitneskjuna sem býr í bókasöfnum. Sorglegasti kaflinn í Íslandsklukkunni er þegar bókasafn Arnasar brennur í eldsvoðanum mikla í Kaupmannahöfn.
Um daginn las ég um háskóla í Bandaríkjunum sem losaði sig við allan bókakost sinn og setti upp tölvur í staðinn. Og rétt er það. Nú er hægt að koma öllum upplýsingum heimsins í tölvur, bókunum líka. En eins og tölvurnar eru gagnlegar eru þær líka andstæða við bókina og einbeitinguna og dýptina sem felst í bóklestri. Tölvurnar eru á sífelldu flökti, þeir sem fara um internetið eru rápandi – þeir fara úr einu í annað, athyglistíminn (eða hvernig þýðir maður attention span?) er mjög stuttur.
Sjálfur las ég upp næstum heilt bókasafn þegar ég var drengur. Það var útibú Borgarbókasafnsins sem var staðsett í Verkamannabústöðunum, á horni Ásvallagötu og Hofsvallagötu. Ég byrjaði á barnabókunum, Enid Blyton, Fimmbókunum og Ævintýrabókunum, færði mig yfir í Bob Moran og Gula skuggann, og var loks kominn yfir í fullorðinsbækurnar. Ég man að það var stórt skref þegar ég fór úr barnabókunum. Þá fékk ég lánaðan Skugga-Svein og ævisögu Kennedys. Aðrar sérstakar uppáhaldsbækur mínar á þessum árum voru saga Reynistaðabræðra og bók sem nefndist Pólitísk morð og tilræði.
Seinna sat ég oft á lessal gamla Landsbókasafnsins og naut andrúmslofts vísdóms og fræða sem þar ríkti. Í minningunni eru það gullnar stundir, meðan vetrarmyrkrið færðist yfir utan við stóru gluggana á Safnahúsinu. Agnar Þórðarson hallar löngum líkamanum aftur í stól bókavarðarins sem var á nokkurs konar háborði, hann les í blaði. Einar Kárason og Einar Már eru að lesa á öðrum borðum. Þarna er líka stelpa sem ég er kominn í augnsamband við – það var líka partur af lífinu í lessalnum. Já, þetta voru góðar stundir.
Einn sorglegasti atburður fornaldar: Bókasafnið í Alexandríu brennur. Þetta er atriði úr stórmyndinni Kleópötru.