Guðmundur Steingrímsson og Ásmundur Einar Daðason gætu nokkurn veginn skipt um sæti.
Jú, Guðmundur er sonur Steingríms og sonarsonur Hermanns, en hann á ekki heima í þeim þjóðernissinnaða Framsóknarflokki sem hélt landsfund um síðustu helgi. Vinir hans og samherjar eru upp til hópa í Samfylkingunni. Guðmundur sagðist ekki ætla að taka þátt í þeim leikaraskap sem vantrausttillaga Sjálfstæðisflokksins væri.
Ásmundur Einar Daðason er af frægu sósíalistakyni í Dölunum. Afi hans, Einar á Lambeyrum, var þekktur kommi. En Ásmundur er þjóðernissinnaður Framsóknarmaður í húð og hár. Það er sagt að helsti lærifaðir hans í pólitík nú um stundir sé Styrmir Gunnarsson. Hann er sagður hafa gengið inn á bar í Miðbænum í kvöld og hrópað „yesss“ eftir að hann var búinn að segja sig úr flokknum.
Nú þegar hann er kominn úr þingflokki VG fer að verða fundafært hjá Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur. Þau gætu farið að stofna sinn eigin flokk. Nema að þau gangi í Framsókn – Hreyfingin er sjálfsagt of Evrópusinnuð fyrir Ásmund og Atla.
En nú er meirihluti ríkisstjórnarinnar orðinn svo tæpur að ekkert má bregða út af. Að því leyti heppnaðist vantrausttillaga Sjálfstæðismanna. Hún sýndi að stjórnin stendur mjög veikt. Jóhanna hefur talað um að þurfi að styrkja hana – það er vandséð hvaðan sá styrkur á að koma. Það var óskhyggja hjá Jóhönnu að þetta myndi þétta raðirnar. En fyrir Framsókn og Hreyfinguna var þetta ekki sérlega góður dagur – þetta var tillaga frá Sjálfstæðisflokknum og hinir flokkarnir voru ekki með nema sem liðléttingar.