Einn vandi hagfræðinnar er að hún er félagsvísindi en ekki raunvísindi. Iðkendum hennar er samt tamt að líta á hana sem einhvers konar raunvísindi – kannski vegna þess að hagfræðin styðst talsvert við stærðfræði. En í raun er hagfræðin „kjaftafag“, rétt eins og stjórnmálafræði og félagsfræði. Það undirstrikar þetta eðli hennar að reglulega tekur rétttrúnaður völdin innan fræðanna.
Ég skrifaði um daginn um viðtal í Frjálsri verslun við Þráin Eggertsson prófessor í hagfræði. Mér fannst viðtalið furðu sjálfhælið, sérstaklega í ljósi þess að það er eitt sem hagfræðinni hefur alveg mistekist – nefnilega að sjá fyrir efnahagskreppur. Samt sitja hagfræðingar í háskólum heimsins, seðlabönkum og fjármálastofnunum og rýna í líkön sín. Heimspekingurinn Nassim Taleb útskýrir þetta reyndar skemmtilega í bók sinni Svarti svanurinn – likönin gera ekki ráð fyrir hinu óvænta. Því getur jafnvel verið sniðugt að gera þveröfugt við það sem hagfræðingahjörðin segir, það segir Taleb að minnsta kosti.
Mér var bent á að Guðni Th. Jóhanesson hefði skrifað grein um þetta í Viðskiptablaðið stuttu eftir hrun. Þetta er góð grein eins og Guðna er von og vísa. Þar er meðal annars fjallað um svar við spurningunni hvert sé mesta „afrek“ hagfræðinnar?
Svarið: „Einfaldlega það að hafa gersamlega mistekist að sjá fyrir og koma í veg fyrir kreppur, þar á meðal fjármálakreppuna sem nú geisar.“
Þið verðið að smella á greinina til að stækka hana.