Maður furðar sig á innanflokksátökunum í VG. Þetta var jú svo samhentur hópur þegar hann var í stjórnarandstöðu. Taldi sig vera í pólitík á öðrum og betri forsendum en hinir flokkarnir.
Nú eru átökin svæsnari en var í Alþýðubandalaginu ef eitthvað er – það er reyndar hliðargrein átakanna að einn slagsmálamaðurinn þaðan, Ólafur Ragnar Grímsson, sé svo mikill örlagavaldur í þessu.
Það hefur alltaf verið grunnt á því góða milli hans og Steingríms J. Sigfússonar – og hvernig ætli það sé nú?
Andrés Jónsson skrifar nokkuð ítarlega grein þar sem hann skýrir út að það sé í sjálfu sér ekki óeðlilegt að Guðfríður Lilja skuli ekki vera þingflokksformaður.
Hin vegar vekur tímasetningin athygli. Maður hefði haldið að forysta VG vildi allt til vinna að róa málin – ef hún á að geta haldið áfram í ríkisstjórn. Í staðinn styggir hún órólegu deildina sem býst undireins til átaka.
Allt er komið í blöðin og á netið á svipstundu – eins og áður sagði, maður hefur varla séð annað eins í stjórnmálaflokki.