Baráttan fyrir Icesave kosninguna harðnar til muna.
Í fyrstu voru nei-sinnar mun háværari, en nú auglýsa já-sinnar grimmt.
Auglýsing sem birtist í Frétttablaðinu í morgun vekur mesta athygli. Þar segjast tuttugu fyrrverandi ráðherrar ætla að segja já – „að vel ígrunduðu máli“.
Þarna eru í hópnum nokkrir fyrrverandi ráðherrar Alþýðuflokksins og kemur svosem ekki á óvart: Jón Baldvin, Eiður Guðnason, Kjartan Jóhannsson, Jón Sigurðsson, Sighvatur Björgvinsson og Rannveig Guðmundsdóttir.
Meiri tíðindum sæta framsóknarmennirnir sem þarna eru: Siv Friðleifsdóttir, Ingvar Gíslason, Jón Sigurðsson, Jónína Bjartmarz og Valgerður Sverrisdóttir.
Þau ganga gegn stefnu formanns flokks síns í þessu máli.
En stórtíðindin eru ráðherrar úr Sjálfstæðisflokknum sem setja nafn sitt á auglýsinguna.
Það eru Friðrik Sophusson, Matthias Bjarnason, Ólafur G. Einarsson, Ragnhildur Helgadóttir, Sólveig Pétursdóttir, Sverrir Hermannsson, Þorsteinn Pálsson – jú, og Halldór Blöndal og Sturla Böðvarsson.
Síðustu tvö nöfnin koma mest á óvart, því báðir hafa þeir verið mjög handgengnir Davíð Oddssyni.
En svo eru aðrir fyrrverandi ráðherrar úr Sjálfstæðisflokki sem eru annarrar skoðunar. Meðal þeirra sem tala og skrifa fyrir nei-inu eru Björn Bjarnason og Tómas Ingi Olrich.