Stjórnlagaráðið gæti verið að leggja sjálft sig niður áður en það er í raun tekið til starfa.
Fjöldi stjórnlagaráðsmanna vill að ráðið hafi rétt til að senda tillögur sínar til þjóðaratkvæðis, áður en Alþingi fjallar um tillögurnar.
Þetta myndi styrkja stöðu Stjórnlagaráðsins mikið, en spurningin er hvort Alþingi samþykkir þetta. Það verður að teljast óvíst.
Stjórnlagaráðsfólk sumt segist ekki ætla að teka sæti nema þetta verði gert – það er varla hægt að leita endalaust neðar á listann til að finna nýja fulltrúa fyrir þá sem detta út.
Krafan er að vissu leyti eðlileg, eða hún var það þegar þetta hét Stjórnlagaþing – áður en Hæstiréttur ógilti kosninguna – þá var þetta í raun helsta tromp Stjórnlagaþingsins.
En nú er það orðið að Stjórnlagaráði með umboð sem sífellt er hægt að draga í efa.
Staðreyndin er sú að það hefði þurft að kjósa upp á nýtt – og reyna þá að læra af mistökunum sem voru gerð í fyrra skiptið. En því miður réð fúskið og óðagotið för, svo mjög að maður spyr hvaða hugur fylgdi máli.