Mér var sagt að ríkisstjórnarfundir færu einhvern veginn svona fram.
Jóhanna setur fundinn, Steingrímur tekur við og reifar helstu mál, svo hefst Össur handa við að byggja brýr milli andstæðra afla í stjórninni.
Þetta er allt frekar veikt. Ríkisstjórnin er með Jón Bjarnason innanborðs og Ögmund – en Össur getur náð til Ögmundar vinar síns. Milli Ögmundar og Steingríms eru fáleikar.
Nú hlaupast Lilja og Atli á brott. Þau styðja ekki stjórnina lengur. Segjast reyndar ætla að vera áfram í VG, en ekki í þingflokknum. Það er undarleg staða og endist varla lengi.
Þá þarf ríkisstjórnin að reiða sig á Guðfríði Lilju, sem er að snúa aftur á þing, Ásmund Einar og téða ráðherra, Ögmund og Jón.
Í sumum málum gæti hún þurft að treysta á stjórnarandstöðuna. Össur þarf að byggja margar brýr.
Er furða þótt menn spyrji hvort dagar ríkisstjórnarinnar séu taldir?
Ég held reyndar að innan hennar sé vilji til að halda áfram – að Jóhanna og Össur séu ekki á leiðinni í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum.
En er þá hægt að skjóta frekari stoðum undir samstarfið. Það virðist ólíklegt. Framsókn hefði eitt sinn talist eðlilegur valkostur – hún á jú sinn vinstri vanga – en meðan Sigmundur Davíð er formaður virðist það ólíklegt.
Framsókn heldur flokksþing 9. apríl, á Icesave-kjördaginn, og þá skýrist kannski hvernig hún stendur í ýmsum málum – og hvort sé einhver möguleiki á að hún gangi til liðs við ríkisstjórnina.