Maður veltir fyrir sér hvernig kosningabaráttan um Icesave 3 fari fram.
Nú er þetta eitthvert mest rædda mál Íslandssögunnar. Menn eru orðnir svo ringlaðir að það er annað slagið slegið upp sem nýjum fréttum einhverju um Icesave sem er löngu komið fram. Jafnvel oftar en einu sinni.
En það þarf auðvitað að standa almennilega að þesum kosningum.
Ég fékk bréf frá einum helsta talsmanni nei-sinna þar sem hann ræddi um að báðar „fylkingar“ þyrftu að fá að kynna málstað sinn.
Vissulega. En maður upplifir þetta ekkert endilega sem tvær fylkingar.
Frekar að fólk sé út og suður í málinu – langstærsta fylkingin er sennilega sú sem er alls ekki viss. Ég sé frekar fyrir mér fólk sem eigrar um í þoku
Hluti nei-sinna hefur safnast saman í hóp sem nefnir sig Advice. Þar virðist fyrst og fremst vera á ferðinni harðsnúið fólk af hægri vægnum.
Nei-sinnar eru nefnilega ekki samstæður hópur heldur. Þeir koma úr hægrinu og ysta vinstrinu, þar er innan um fólk sem er beinlínis á móti kapítalismanum, og svo er þarna einn armur Framsóknarflokksins, eitthvað af andstæðingum ESB og svo menn sem vilja fyrir alla muni klekkja á ríkisstjórninni og syrgja það mest að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eyðilagt vígstöðu sína með því að ganga jáinu á hönd.
Sumir eru prinsíppmenn sem finnst að skattgreiðendur eigi alls ekki að borga skuldir sem einkabankar hafa stofnað til – aðrir eru að nota atkvæðagreiðsluna í pólitískari, má maður segja tækifærissinnaðri tilgangi.
Svo eru það já-sinnarnir. Þeir eru í raun í vandræðum. Það eru ekki margir sem vilja fara út á vettvang þjóðmálanna til að berjast fyrir Icesave. Eða hver vill fórna sér í það? Það er erfitt að vera brennandi í andanum í þessu máli. Ríkisstjórnin er líka frekar máttvana – hvað lítið sem hún gerir umfram að senda frumvarpið í pósti til landsmanna má túlka sem áróður. Og svo er spurning með forystu Sjálfstæðisflokksins – er líklegt að hún beiti sér af einhverjum krafti til að úrslitin verði já? Það verður trauðla séð.
Það er alveg sama hvaða tölur eru nefndar um kostnaðinn af Icesave – þær eru alltaf véfengdar. Það er talað um dómstólaleið en menn geta ekki verið sammála um hvað hún þýðir. Það er talað um að þurfi að kynna staðreyndir málsins – en svo er sífellt verið að rífast um téðar staðreyndir. Deilurnar halda áfram, rísa og hníga, en við færumst ekkert nær niðurstöðu. Og alltaf er stutt í skætinginn.
Sannfæring nei-sinna er sterkari og það er líklegt að þeir muni bera já-sinnana ofurliði í kosningabaráttunni – ef einhver verður. Það er spurning um hvort já-sinnar geti yfirleitt skipulagt einhverja kosningabaráttu. Það verður líka erfiðara að draga þá sem eru hálfvolgir í jái sínu á kjörstað. Þannig að áróðursstaða nei-sinnanna er nokkuð góð.
Hins vegar er mun minni áhugi fyrir þessari kosningu en þeirri sem fór fram í janúar í fyrra. Margir eru í alvörunni komnir með æluna upp í kok vegna Icesave. Eins og staðan er finnst manni líklegt að verði mjótt á mununum. Veikt nei eða veikt já – er það góð niðurstaða?