Ásgeir Brynjar Torfason, sem er búsettur í Svíþjóð, sendi þennan pistil.
— — —
Sæll Egill,
fyrir rúmu ári sendi ég þér stuttan pistil með fréttum af orðspori Íslendinga í útlöndum. Nú virðist mér aftur þörf að huga að þessu orðspori frá skandinavísku sjónarhorni.
Við það að búa í útlöndum í nokkur ár breytist sýn manns á föðurlandið og það sem þar gerist. Þessi rúmlega tvö ár sem liðin eru frá hruninu hafa einkennst af ákaflega mikilli áherslu á tiltekinn milliríkjasamning um ábyrgð ríkisins á endurgreiðslu lágmarkstryggingar innistæðueigenda. Það eru notaðar líkingar eins og að standa í lappirnar gagnvart stórveldum og að ekki skuli greiða skuldir óreiðumanna. Héðan utanfrá séð virðist viðspyrnan í þessari alþjóðlegu deilu frekar veik og mikilvægt að muna að skuldir bankanna voru innistæður og eign venjulegs fólks í Evrópu.
Samt sýnist manni að hvorki þjóðin, þingið né forsetin skilji hvernig komast á út úr þeirri stöðu sem upp er komin, bæði í stjórnskipuninni og samskiptunum við önnur lönd. Það virðist bara eiga að halda áfram að rífast um þetta. Eflaust var það snjallt bragð til að fá betri samning að hafna lögunum í fyrra, en nú er kominn tími til að laga sig að raunveruleikanum, þar sem valkostirnir eru ekkert sérstaklega góðir.
Það er frekar erfitt að útskýra söguþráðinn í þessu leiðinlega máli fyrir útlendingum. Hér á kaffistofunni í vinnunni minni eru nokkrir Svíar, þrír Ítalir, Pólverji og Lithái sem borða saman hádegismat. Flestum í þessum hópi fannst áhugavert að heyra af rannsóknarskýrslunni, sérstökum saksóknara og tilrauninni um stjórnlagaþing þegar rætt er hvernig gangi að byggja upp landið eftir hrunið. Mörgum fannst líka sniðugt hjá forsetanum að samþykkja ekki samninginn í fyrra. Það gátu margir séð ósanngirnina í því að láta almenning taka á sig auknar álögur vegna erlendra skulda út af bankahruninu. Þó að allir hafi samt áttað sig á því að þetta yrði að borga einhvernveginn á endanum. Alveg eins og skuldir vegna óábyrgra útlána seðlabankans til óreiðumannanna í gjaldþrota bönkunum.
Frá síðustu kosningum um samningana hafa líka miklar álögur verið lagðar á evrópska borgara vegna kostnaðarsamra björgunaraðgerða fyrir misgóða banka. Það er ekkert sérstaklega flókið hvernig innistæðutryggingin virkar og fólk hérna veit að ef bönkunum er ekki hjálpað þá muni afleiðingarnar geta orðið verri. Því er ekki viðbúið að alþjóðleg fjölmiðlaherferð forsetans núna takist jafn vel og í fyrra. Í dag fæ ég spurningar um það hvort Íslendingar haldi í alvörunni að hægt sé að kjósa sig frá skuldum og fara ekki eftir alþjóðasamningum? Sumir geta ekki annað en hlegið að þessari skrítnu þjóð á kaffistofunni. Skuldatryggingarálag ríkisins sýnir hvernig alþjóðlegi fjármálamarkaðurinn tekur fréttunum.
Viðskiptaritstjóri sænska dagblaðsins skammar forseta Íslands í blaði dagsins fyrir að samþykkja ekki hinn nýja og miklu hagstæðari samning, sem felur í sér mun lægri vexti en t.d. Írar þurfa að greiða. Hann segir það ekki hæfa yfirmanni í ríki sem telur sig hafa fulltrúalýðræði og segir að hann ætti að draga ákvörðun sína tafarlaust til baka. Annars er líklegast að meirihluti landsmanna kjósi gegn samningnum sem mun leiða til þess að þjóðin stendur einangruð gegn alþjóðasamfélaginu og geti lent í erfiðu dómsmáli sem mun tefja mjög efnahagsbata landsins.
Nú er kominn tími til að standa í lappirnar sem ábyrg þjóð meðal þjóða og láta ekki orðspor óreiðumannanna festast við alla Íslendinga.
Með bestu kveðju frá Skandinavíu,
Ásgeir Brynjar Torfason