Mér er sagt að lagið Til hamingju Ísland hafi verið spilað nokkrum sinnum á Útvarpi Sögu í morgun. Innhringjendur voru meira að segja farnir að syngja með.
Kunningi minn sem hlustar á útvarp Sögu sagði að þetta hefði bókstaflega verið epísk útsending.
Maður fór um bæinn og talaði við fólk. Í flestum var hljóðið eitthvað á þessa leið:
„Æ, ekki meir, ekki meir!“
En það verður þjóðaratkvæðagreiðsla eftir innan við tvo mánuði – ætli líklegasti kjördagurinn sé ekki 9. apríl. Spurning hvort stjórnlagaþinginu verður fléttað saman við.
Menn eru misjafnlega kátir.
Ég hitti gamlan Alþýðubandalagsmann sem sagði að Ólafur Ragnar hefði náð að slá tvær flugur í einu höggi: Upphefja sjálfan sig og klekkja á gömlum fjandmönnum úr Alþýðubandalaginu.
Svo er það hópurinn sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni kjósum.is. Hann vann náttúrlega góðan sigur í gær. Hluti af sigrinum er að forsetinn sjálfur hafi farið að hringja út til að kanna gildi söfnunarinnar.
Hópurinn getur líka fagnað öðru. Ég held að megi fullyrða að allir aðstandendur söfnunarinnar séu hatrammir andstæðingar inngöngu Íslands í ESB.
Fyrir þá væri góður bónus ef Icesave gæti truflað umsóknarferlið, eins og hollenskur þingmaður var að hóta í fréttum í kvöld.