Þegar Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir Icesavelögin í byrjun síðasta árs var ég alveg viss um að sú yrði ákvörðun hans.
En nú er erfiðara að spá í þetta. Eins og ég hef bent á getur hann fært ágæt rök fyrir því að játa og fyrir því að neita. Hann ætlar greinilega að tilkynna þetta síðar í dag.
Við hljótum að telja að hann velji það sem hann álítur best fyrir þjóðina, ekki bara hann sjálfan.
Hann getur sagt, eins og hann hefur gert þegar, að samningurinn núna sé miklu betri en hinir fyrri. Að málinu verði stefnt í of mikla óvissu ef hann verður ekki samþykktur. Að Alþingi hafi samþykkt hann með miklum meirihluta.
En hann getur líka sagt að þjóðin eigi að tjá sig um þennan samning líkt og þann síðasta. Þetta sé mál sem hún sé fullfær um að hafa skoðun á. Og hann getur vísað til þess að enn sé bil á milli þings og þjóðar í málinu.
Það er óneitanlega nokkur spenna í loftinu. Og það má spyrja hver verði viðbrögð ríkisstjórnarinnar ef Ólafur neitar að skrifa undir?
Og svo má spyrja hver verða áhrifin á forsetaferil Ólafs Ragnars? Hann hefur eignast marga nýja aðdáendur vegna afstöðu sinnar í Icesave – snúa þeir við honum bakinu ef hann skrifar undir? En líklega hefur of mikið gengið á til að ríkisstjórnarflokkarnir taki hann í sátt.
Ég spáði rétt í janúar á síðasta ári – en nú þori ég barasta ekki að spá.