Nú er fyrirbærið sem hefur kallast Bókabúð Máls & menningar farið á hausinn.
Auðvitað var þetta ekki Bókabúð Máls & menningar. Hún var hætt, runnin inn í Eymundsson, það sem var eftir af henni flutti upp í Spron-húsið á Skólavörðustíg þar sem nú er bókabúð og kaffihús.
Húsnæði hinna sögufrægu bókabúðar var komið í eigu fasteignabraskara – sem áttu líka um tíma húsin sem verið er að endurbyggja á Laugavegi 4-6 – og ákváðu að stofna bókabúð undir þessu nafni.
Því miður virtust þeir ekki hafa mikið vit á rekstri bókabúða – búðin náði sér ekki á strik.
Bókabúð Máls & menningar var í húsi sem kallaðist Rúblan. Nafnið er tilkomið vegna þess að sagan sagði að það hefði verið byggt fyrir Rússagull. Það var aldrei sannað – nema hvað talið var víst að Austur-Þjóðverjar hefðu lagt til lyftuna. Upprunalega voru margar sölubúðir í húsinu – svona rétt eins og var í Vesturveri svokölluðu á neðstu hæð Morgunblaðshússins – en smátt og smátt þandi bókaverslunin sig út í allt rýmið.
Ég var þarna fastagestur frá því ég var barn, fyrst með foreldrum mínum, svo með vinum mínum eftir að ég fór að kaupa bækur sjálfur á menntaskólaárunum. Þarna stundaði Magnús Torfi bóksölu áður en hann var ráðherra, þarna var Anna Einarsdóttir, bróðurdóttir Kristins E. Andréssonar, og þarna var Sigfús Daðason áður en hann hvarf á braut og stofnaði Ljóðhús. Ég hef átt góðar stundir í þessari búð, en líka erfiðar – eins og þegar ég var lítill og fór þangað með pabba mínum og tókst ekki að draga hann út aftur. Seinna kom sá tími að ég hefði getað ratað blindandi um búðina.
Mál & menning var á þessum árum og lengi síðar miðpunktur bæjarlífsins. Á besta skeiði sínu var þetta ein fremsta bókabúð á Norðurlöndunum, held ég megi segja. Við eigum ekkert í líkingu við hana núna, þótt Eymundsson búðin á Skólavörðustíg sé skemmtileg blanda af bókabúð og kaffihúsi og Eymundsson búðin í Austurstræti bjóði upp á ágætis úrval í mörgum deildum.