Undirskriftasöfnun þar sem forsetinn er hvattur til að hafna Icesave sýnir að það er nauðsynlegt að búa til farveg fyrir mótmæli af þessu tagi.
Þau eiga auðvitað fullan rétt á sér.
En það verður að setja einhver viðmið um hvernig undirskriftum er safnað, hverjir eru ábyrgir, hvernig upplýsingum er miðlað úr svona söfnun – svo ekki sé hægt að draga trúverðugleikann í efa.
Í raun er best að útbúa eitthvert staðlað form á þessu sem fólk getur notað. Það þyrfti að vera tiltækt á vef Stjórnarráðsins eða Alþingis með leiðbeiningum, og um leið þarf að búa svo um hnútana að óháðir aðilar leggi mat á undirskriftirnar.
Tómas Hafliðason verkfræðingur sem bloggar hér á Eyjunni bendir á ýmsa annmarka við undirskriftasafnanir á netinu og ræðir hvað þarf að gera til að þær verið trúverðugar.