Jón Ásgeir Jóhannesson kvartaði undan því um daginn að hafa ekki fengið að halda Högum, sagðist hafa haft áætlun um að borga skuldir tengdar félaginu. Sigrún Davíðsdóttir flutti pistil í Spegilinum og benti á nokkrar mótsagnir í þessu hjá útrásarvíkingnum. Hún sagði meðal annars:
„Hér er kannski rétt að hafa í huga að í lok 2007 námu skuldir Baugs og Gaums um 1000 milljörðum króna, tæplega þreföldum tekjum ríkissjóðs það ár. Kröfurnar í gjaldþrota Baug námu 317 milljörðum. Jón Ásgeir hefur sagt Gaum ógjaldfært félag. Engar skuldatölur, félagið er skráð í Lúxemborg. Þegar eignir Jóns Ásgeirs voru kyrrsettar námu þær um 200 milljónum króna. David Steele dómari sagði þá óskiljanlegt að maður sem að sögn átti 114 milljarða króna og hefði að eigin sögn velt um 60 milljónum króna á mánuði í sjö ár, fram að hruni, ætti ekki meira en þetta.
Þetta er því athyglisverð heimsýn að kröfuhafar séu nú að tapa á sölu Haga. Skaðinn er þegar skeður, samanber 1000 milljarðana sem Baugur og Gaumur skulduðu. Og ef Jón Ásgeir hefur aðgang að meiru en þeim 200 milljónum sem hann á enn þá er spurning hvort kröfuhafar vilja ekki fá skuldir borgaðar áður en skuldarinn fær enn á ný að kaupa eignir.“