Í Kiljunni annað kvöld segir Bragi Kristjónsson frá Ólafi Friðrikssyni, sósíalista og baráttumanni. Á efri árum fór Ólafur að skrifa spennusögur undir nafninu Ólafur við Faxafen, meðal annars bókina Allt í lagi í Reykjavík.
Guðni Gunnarsson jógameistari segir frá bók eftir sig sem er nýútkomin, hún nefnist Máttur viljans og kennir meðal annars hvernig fólk geti náð stjórn á hugsunum sínum í æðibunugangi hversdagsins.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson segir frá doktorsritgerð sinni sem nefnist Tólf alda tryggð. Bókin segir frá notkun stuðla í íslenskum kveðskap allt frá 9. öld og fram til Þórarins Eldjárns og Þorsteins frá Hamri. Ein niðurstaða Ragnars er að stuðlasetningin hafi tekið furðu litlum breytingum.
Flutt verður ljóð eftir Kristínu Jónsdóttur sem er glæstur fulltrúi íslenskrar ljóðahefðar. Ragnar átti mikinn þátt í að koma ljóðabók hennar, Bréfum til næturinnar, á prent.
Þorgerður E. Sigurðardóttir og Haukur Ingvarsson fjalla um Dýrin í Saigon eftir Sigurð Guðmundsson og nýútkomið safn með ljóðum og myndum eftir Jónas E. Svafár.
Ólafur Friðriksson skrifaði spennusöguna Allt í lagi í Reykjavík undir höfundarnafninu Ólafur við Faxafen.