Mubarak segir af sér og það er fagnað og fögnuðurinn er smitandi.
En varaforsetinn Suleiman er ekki sérlega geðslegur fýr – hann er sagður hafa starfað í pyntingaklefum.
Herinn á að taka þátt í að þróa landið í átt til lýðræðis.
Herinn er langsterkasta aflið í Egyptalandi líkt og í fleiri ríkjum í Miðausturlöndum. Hann hefur verið bakhjarl einræðis Mubaraks.
En hann vill líka halda uppi góðum samskiptum við Vesturlönd.
Það er dásamlegt hvað þessi bylting hefur farið friðsamlega fram – friðsamir mótmælendur hafa hrakið harðstjóra af veldisstóli.
Þetta er auðveldara á tíma sjónvarps, internets og fésbókar.
En þetta eru óvissutímar. Fordæmið frá Íran 1979 er víti til varnaðar. Þar gerðu ýmis öfl uppreisn gegn keisaranum, á endanum voru harðlínu íslamistar búnir að útrýma þeim sem voru ekki á sama máli og þeir eða hrekja þá úr landi.
Það eru vonir bundnar við El Baradei Nóbelsverðlaunahafa. Hann virðist vera líklegasta forsetaefnið. En fátæktin í landinu er skelfileg og atvinnuleysið líka, ekki síst meðal ungs fólk sem býr í borgum og á erfitt með að finna tilgang með lífi sínu. Kaíró er ógnarstór og að sumu leyti ógnvænleg borg, eins og borgir í þriðja heiminum þar sem hefur orðið mannfjöldasprenging síðustu áratugina.
Og svo er spurning hvort verður hægt að ná einhverju af milljarðaþýfinu af Mubarak og fjölskyldu hans?