Ron Paul þingmaður er repúblikani, harður hægri maður, en er um leið gagnrýnandi bandaríska kerfisins sem er tekið mark á .
Ron Paul hefur nýlega sagt að Bandaríkin eigi sinn hlut í vandamálunum í Egyptalandi.
„Þetta er hættan við íhlutunarstefnuna í utanríkismálum. Allt í einu erum við stödd í miðju stríði. Nú höfum við verið þarna í 30 ár. Við höfum gefið Mubarak 30 billjónir. Vð eigum okkar sök á glundroðanum þarna,“ sagði Ron Paul á Fox News.
Ron Paul hefur einnig fjallað um hnignun bandaríska heimsveldisins, hann telur að heimsveldistíminn kunni að vera að renna sitt skeið.
Ron Paul telur að atvinnuleysi í Bandaríkjunum sé stórlega vanmetið, það sé nær því að vera 22 prósent.
Ennfremur segir hann í endursögn Mbl.is um skaðann sem hann telur að bandaríski Seðlabankinn hafi valdið með því að dæla peningum inn í hagkerfið:
„Ég held að hann sé ótrúlegur, skaðinn getur orðið svo gríðarlegur og gæti komið af stað miklu áhlaupi á dollarann um allan heim. Við erum á alveg ótroðnum slóðum. Ég held að við eigum eftir að sjá breytingar á efnahagslífinu og þjóðlífinu sem jafnist nærri því við breytinguna sem átti sér stað í sovéska kerfinu. Ég held að þær komi heimsveldi okkar á kné – við munum ekki eiga fyrir velferðarkerfinu og við munum ekki hafa efni á því að gæta hagsmuna annarra í heiminum.“