Guðbjörn Guðbjörnsson skrifar grein hér á Eyjuna um reynslu sína af stjórnmálastarfi og viðskiptalífi í Reykjanesbæ. Guðbjörn bjó þar til skamms tíma, en er nú fluttur í Kópavog. Í greininni segir meðal annars:
„Árið 2007 frétti ég síðan af því að þessir menn gengu inn og út úr Sparisjóði Keflavíkur og virtust geta tekið þar lán eins og þá lysti – það skaðaði auðvitað ekki að þeir stjórnuðu sparisjóðnum. Í fyrstu reyndi ég að verja þetta, ekki síst af því að um félaga mína í Sjálfstæðisflokknum var að ræða, en einnig vegna þess að ég taldi það eðlilegt að Sparisjóðurinn lánaði farsælum útgerðarmanni peninga og sömu sögu var auðvitað um stórefnaðan athafnamann í bænum. Ef sparisjóðurinn átti að lána einhverjum, þá var það einmitt slíkum mönnum.
Um mitt ár 2007 voru sögusagnirnar hins vegar orðnar þannig að ég gat ekki lengur varið þetta. Veturinn 2007-2008 færðu ég og nokkrir aðrir þetta í mál við nokkra aðila í fulltrúaráðinu og spurðum, hvort slík fyrirgreiðsla væri eðlileg. En því er við að bæta að umsvif þessara manna og tengdra aðila á Varnarsvæðinu voru farin að verða þannig að við töldum þetta mjög óeðlilegt. Að auki mátti gagnrýna ýmsar aðrar ákvarðanir er tengdust úthlutun lóða og framkvæmda á vegum bæjarins, sem okkur fannst orka tvímælis. Nú, nokkrum árum síðar, þegar ljóst er að ríkissjóður verður að taka 14 milljarða af skattfé landsmanna til að greiða upp skuldir útrásarvíkinganna í Reykjanesbæ, er ég mjög hugsi hversvegna við lömdum ekki sterkar í borðið um árið og kröfðust útskýringa. Við getum þó varið okkur með því, að við vissum ekki að það var sparisjóðsstjórinn, sem ákvað hverjir yrðu „milljónamæringar“ og hverjir ekki.
Það er ömurlegt til þess að hugsa og vita, að venjulegir launamenn í Reykjanesbæ hafa tapað á þessum viðskipum við Sparisjóðinn milljónum og jafnvel tugum milljóna króna, sem þeir hafa unnið fyrir í sveita síns andlits. Enn ömurlegra er að vita að á meðan þetta fólk berst í bökkum, aka fyrrverandi stjórnendur sparisjóðsins – og þeir sem fengu lánað án þess að lánanefndin tæki lán þeirra fyrir – enn um á sínum Range Roverum og Land Cruiserum, búa í sínum glæsihýsum og fara í sín landsetur um helgar og virðast ætla að halda í allar sínur eigur.“