Umræðan á Alþingi í gær var bókstaflega herfileg. Það var ljótt að sjá hvernig þingmenn hlupu í skotgrafir.
Sumir voru fullir af Þórðargleði, en Jóhanna Sigurðardóttir varð heldur smá þegar hún gat ekki beðið afsökunar heldur viðraði meðal annars þá fáránlegu hugmynd að 25 menningarnir sem náðu kjöri í kosningunum misheppnuðu yrðu einfaldega skipaðir af Alþingi til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni.
Það yrði endanlega til að gera út af við trúverðugleika þessa ferlis.
En það eru ýmsir fletir á þessu.
Maður skyldi halda að kjörstjórn sé einmitt til þess að koma í veg fyrir að svonalagað gerist. Það eru lög um hvernig halda skuli kosningar, fæst fólk hefur sérþekkingu á því sviði, og þarna er einmitt lögfræðinganna að skera úr. Kjörstjórnin virðist hafa leyft sér að taka óþarfa áhættu með kosninguna – vinnubrögðin eru mjög óvönduð og tjóar í raun lítið að kenna Hæstarétti um. Hann dæmir eftir þröngum lagabókstaf, en lögfræðingarnir í kjörstjórninni eiga að vita að fyrir því er hefð á Íslandi.
Svo er það spurning með frambjóðendurna til þingsins og ekki síst þingfulltrúana 25 sem þurfa að sitja heima. Margir voru búnir að gera ýmsar ráðstafanir vegna þingsins, eyða fé og fyrirhöfn í kosningabaráttu, fá frí frá vinnu eða skóla. Þingfulltrúarnir hafa verið að búa sig undir þetta nýja hlutverk – þetta er áfall fyrir þá. Það er spurning hvort með einhverjum hætti þurfi að bæta þessu fólki skaðann – einhverjum gæti jafnvel komið í hug að leita réttar síns.
Í stöðunni er varla annað hægt en að boða til nýrra kosninga til Stjórnlagaþings, eins og Ólafur Stephensen bendir á í leiðara Fréttablaðsins í dag. Svo þurfa menn að draga lærdóma af þessu: Fúskið verður að hætta.