Miðað við dóm Hæstaréttar er kosningin til Stjórnlagaþingsins eitt stórt klúður.
Það verður rætt fram og til baka næstu dagana hver ber sökina. Kjörstjórnin hlýtur að segja af sér – ég sting upp á að það verði gert með japönskum hætti þar sem hún tyftar sjálfa sig í beinni útsendingu.
En sannarlega eru þessari ríkisstjórn mislagðar hendur um margt – þetta er enn eitt dæmið um lánleysi hennar og er mikill álitshnekkir.
Hún á hins vegar varla annan kost en að efna til nýrra kosninga til Stjórnlagaþings, þ.e. ef það er enn sannfæring hennar að rétt sé að breyta stjórnarskránni.
Má vera að framkvæmdin verði betri í það skiptið, þótt það sé spurning um þátttökuna.
Hitt má þó benda á að þrátt fyrir dóm Hæstaréttar hafa ekki verið nefnd nein dæmi um misferli eða svindl í kosningunum eða að það kosningaleyndinni hafi verið aflétt á einn eða neinn hátt.
Jafnvel þótt ekki hafi verið hægt að brjóta saman kjörseðlana.