Þessi gamli maður er orðinn stórstjarna í Frakklandi. Hann er fæddur í fyrri heimsstyrjöldinni, árið 1917. Hann heitir Stéphane Hessel, var diplómati, tók þátt í störfum andspyrnuhreyfingarinnar, er með æðstu heiðursmerki Frakklands, og var einn af höfundum Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna árið 1948. Að uppruna er hann Þjóðverji, faðir hans, rithöfundurinn Franz Hessel, er sagður hafa verið fyrirmyndin að Jules í skáldsögunni Jules et Jim eftir Henri Pierre Roche, en Francois Truffaut gerði fræga kvikmynd eftir henni.
Hessel kynntist hörmungum tuttugustu aldarinnar á eigin skinni. Hann sat í fangabúðunum Buchenwald og Dora, slapp naumlega við að verða hengdur, en tókst loks að flýja.
Á síðasta ári skrifaði Hessel ritgerð sem nefnist Indignez-vous – sem þýðir einfaldlega Hneykslist eða Verðið reið – hún hefur selst í meira en 600 þúsund eintökum. Þar segir hann að Frakkar þurfi að finna aftur réttláta reiði – líkt og á tíma andspyrnuhreyfingarinnar. Þeir þurfi að bregðast við alls kyns óréttlæti, ójöfnuði, bilinu millri ríkra og fátækra, vondri meðferð á innflytjendum, umhverfisspjöllum, kúguninni sem Palestínumenn eru beittir – sem hann segir að sé glæpur gegn mannkyninu – og niðurskurði í velferðarkerfinu.
Hessel boðar uppreisn – þó með friðsömum hætti – og sjálfur hefur hann staðið fyrir mótmælum í París og komið fram á ýmsum fundum þrátt fyrir háan aldur.
Hér má finna enska þýðingu á Indignez-vous.
Stéphane Hessel á fundi hjá Europe Écologie, stjórnmálahreyfingunni sem Eva Joly tilheyrir. Eva er til vinstri á myndinni.