Ég hef verið að skoða aðeins deilur sem urðu um kvikmyndina Táknmál ástarinnar árið 1970.
Myndin var synd í Hafnarbíói og var sögð vera hispurslaus fræðslumynd um kynlíf.
Valinkunnt sómafólk brást hart við og mótmælti sýningum myndarinnar, þar voru fremst í flokki Kristján Albertsson rithöfundur, Freymóður Jóhannesson listmálari og lagahöfundur og Dagrún Kristjánsdóttir húsmæðrakennari.
Meðal annars var skrifað um myndina:
„Það er allt annað en skemmtilegt að þurfa að tala um svona kvikmynd. En ég lít svo á að sýning hennar, og annarra slíkra mynda, sé svívirðilegt tilræði gegn íslenzku þjóðarheilbrigði og íslenzkri siðmenningu, og bein ættjarðarsvik. Ef ég þegði, og allir aðrir, myndi mér alla ævi finnast ég hafa gerzt samsekur ættjarðarsvikumm, með því að láta undir höfuð leggjast að kæra glæpi þeirra.“
Svo var haldinn borgarafundur um myndina á vegum Stúdentafélagsins. Þar voru Kristján, Freymóður og Dagrún og svo sat Jón Steinar Gunnlaugsson líka í pallborði, þá ungur stúdent.
Þau þrjú hafa sjálfsagt óttast að allar gáttir væru að bresta og klámið myndi flæða yfir landsmenn. Til þess var vísað að Kaupmannahöfn hefði fyllst af klámbúllum. Kannski höfðu þau líka rétt fyrir sér – að sumu leyti:
Í gær spurði Kári:
„Finnst þér rapp kannski skaðlegt fyrir börn?“
„Ha, af hverju?“
„Það er verið að syngja svona: Sælir Nilli, ég er að banga chicks…“
„Hvað þýðir það?“
„Á ég að segja þér það?“
„Veistu það?“
„Já, það er líka verið að syngja um bitch.“
„Hverjir eru að syngja þetta?“
„Það voru strákar að syngja þetta í rútunni á leiðinni á frístundaheimilið.“
„Er þetta þá eitthvað lag?“
„Já.“
(Þess má svo geta að næstum 50 þúsund Íslendingar fóru í Hafnarbíó að sjá Táknmál ástarinnar.)
Það var auglýst að í Táknmáli ástarinnar mætti sjá alvöru samfarir.