Það er umhugsunarvert að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, skuli bjóða leiðtogum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á fund til sín í Lundúnum.
Nú má sjá fréttamynd af Jóhönnu Sigurðardóttur hróðugri ásamt Cameron á tröppum Downingstrætis 10. Þetta er í fyrsta sinn að íslenskur forsætisráðherra fer til Bretlands eftir að hrunið á Íslandi eitraði samskipti þjóðanna.
Cameron er í erfiðri stöðu eins og Jóhanna. Vinsældir stjórnar hans dvína stöðugt. Hann var ekki kosinn sérstaklega vegna vinsælda sinna, heldur vegna þess að Verkamannaflokkurinn var orðinn svo óvinsæll. Nú er hann aftur kominn yfir skoðanakönnunum.
Efnahagur Bretlands er í slæmu ástandi, niðurskurðurinn sem stjórn Camerons hefur gripið til er geigvænlegur, skattar hafa verið hækkaðir og atvinnuleysi fer vaxandi.
Á þessum tíma boðar Cameron til þessa leiðtogafundar.
Er það vegna þess að Norðurlöndin hafa staðið kreppuna vel af sér? Mun betur en til dæmis Bretland og Írland – að undanskildu Íslandi.
Vilja Bretar fara að seilast enn til meiri áhrifa Skandinavíu – og þá til mótvægis við Þjóðverja sem þar hafa ítök í gegnum langa sögu samskipta. Þjóðverjar hafa líka farið vel í gegnum keppuna og áhrif þeirra eru að aukast fremur en hitt. Þýskaland er nátturlega hið raunverulega stórveldi í Evrópu – og í Evrópusambandinu.
Það er athyglisvert að öll ríkin eru í Evrópusambandinu, nema Ísland og Noregur. Hins vegar hafa þau fæst tekið upp evruna.
Menningarlega eru Norðurlöndin hins vegar mjög á bresku yfirráðasvæði – svo mjög að varla er á það bætandi. Á Norðurlöndunum horfir fólk á enska boltann, hlustar á enska tónlist, horfir á enskt sjónvarpsefni.
En svo er reyndar hins að gæta að áhrif frá Bretlandi hafa ekki endilega verið til góðs, að minnsta kosti ekki viðskiptalífinu þar sem City í London er að sumu leyti eins og risastór aflandseyja fyrir peninga. Íslensku útrásarvíkingarnir leituðu til London og voru þar eins og fiskar í vatni.
Eða ætla Bretar að fara að læra af Norðurlöndunum um aðeins hófstilltari samfélagsgerð, svona rétt eins og hefur verið sagt að sé ekki vanþörf á hér á Íslandi?