Fyrsti þáttur Kiljunnar á þessu ári er annað kvöld.
Við kynnum til sögunnar nýjan liðsmann, það er Haukur Ingvarsson, bókmenntafræðingur og útvarpsmaður.
Í þessum þætti fjalla Haukur og Þorgerður E. Sigurðardóttur um eina umtöluðustu bók seinni ára, skáldsöguna Freedom eftir Jonathan Franzen. Vegna bókarinnar komst Franzen á forsíðu Time í fyrra – þetta er breið lýsing á lífi millistéttarfólks í bandarískum nútíma þar sem allt er undir, tilfinningalífið, fjölskyldan, ástin og pólitíkin.
Við ræðum einnig um bókina Kaffihús tregans eftir Carson McCullers en hún er nýkomin út í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar.
Sigríður Pétursdóttir kemur í þáttinn og segir frá bók sinni Geislaþráðum, en hún innheldur sögur sem sagðar eru á formi tölvupóstssamskipta.
Við Guðjón Friðriksson förum á skáldaslóðir í Fossvogskirkjugarði. Í þessum þætti koma meðal annarra við sögu Sigfús Daðason, Steinar Sigurjónsson, Hannes Sigfússon, Þorgeir Sveinbjarnarson og Jóhannes úr Kötlum.
Haukur Ingvarsson er nýr liðsmaður Kiljunnar. Hann verður í þættinum annan hvern miðvikudag ásamt Þorgerði E. Sigurðardóttur.