Það eru klassískar fréttir í breskum fjölmiðlum þegar fjallað er um bankamenn sem fagna bónusgreiðslum til sín með því að kaupa rándýrar vínflöskur.
Svona fréttir birtast iðulega, fólk tekur andköf af hneykslun, það er talað um að bónusarnir séu ósiðlegir, en breska stjórnin gerir ekki neitt í því, sama hvaða flokkur er við völd. City er ríki í ríkinu og hefur í raun meiri völd en ríkisstjórnin.
Hér á Íslandi fengum við stundum fréttir í þessum dúr á tíma útrásarvíkinganna – en annars hefur aldrei þótt fínt að flíka auði sínum á Íslandi, ekki nema þann stutta tíma þegar útrásarsturlunin var í hámarki.
Þess vegna vekur útgerðarmaðurinn sem keypti rándýra vínið í fríhöfninni svo mikla athygli. Þetta særir líka velsæmiskenndina, enda er skilningur flestra að útgerðin eigi ekki verðmætin í sjónum, heldur hafi þau eingöngu að láni til að nytja þau.