Það hefur komið fram að Björgólfur Guðmundsson hafi verið með skrifstofu í Landsbankanum milli skrifstofa bankastjóranna Sigurjóns Árnasonar og Halldórs J. Kristjánssonar.
Þetta er sérstaklega tilgreint í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og talið óeðlilegt, enda var stöðugt verið að dæla peningum í fyrirtæki þeirra Björgólfsfeðga og kumpána þeirra.
Eða kannski má bara kalla það „hæg heimatök“?
Sigurjón og Halldór er nú í strangri lögreglurannsókn, Sigurjón í gæsluvarðhaldi og Halldór í farbanni.
Meðal þess sem sagt er að Sigurjóni sé gefið að sök er að heimila yfirdráttarlán upp á 4,5 milljarða króna til búlgarsks viðskiptafélaga Björgólfs Thors Björgófssonar nokkrum dögum áður en Landsbankinn féll. Lánið er sagt hafa verið notað til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum – þá væntanlega í þeim tilgangi að halda hlutabréfaverðinu uppi.
En eins og margoft hefur komið fram var Björgólfur Thor algjörlega ótengdur aðili.